Í síðustu viku hófst í Skógum undir Eyjafjöllum námskeið sem kallast „Leiðsögn á Jarðvangi – Katla Geopark“.
Námskeiðið er haldið í samstarfi Fræðslunets Suðurlands og Háskólafélags Suðurlands. Það mun standa í sex vikur og verður fjarkennt í Vík, á Klaustri og Hvolsvelli eitt kvöld í viku. Námskeiðinu lýkur með ferð um svæðið þar sem þátttakendur spreyta sig í leiðsögn.
Mikill áhugi er fyrir námskeiðinu en alls eru þátttakendur 37. Markmið námskeiðsins er að stuðla að því að gera heimamenn og aðra áhugasama færa um að taka að sér leiðsögn á jarðvangi. Þátttakendur verða þjálfaðir í leiðsögutækni og fræddir um jarðfræði og menningu á svæðinu.
Hannes Stefánsson, leiðsögumaður og framhaldsskólakennari er umsjónarmaður námsskeiðsins, en fjölmargir þekktir fræðimenn og fyrirlesarar koma að kennslunni.
Í haust var formlega stofnaður jarðvangur á Suðurlandi, Katla Geopark í Skaftárhreppi, Mýrdalshreppi og Rangárþingi eystra. Námskeiðið er liður í því að þróuð verði jarðfræðitengd ferðamennska á svæðinu sem byggi á fræðslu um jarðminjar, samspil manns og náttúru og útivist.