Jarðskjálftasýningin opnuð

Í dag var opnuð sýning um áhrif Suðurlandsskjálftans þann 29. maí 2008 í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í Hveragerði.

Eftir ræðuhöld og formlegheit klipptu Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, og Rut Þorsteinsdóttir, frá Kotströnd í Ölfusi, á borða og opnuðu sýninguna. Rut, sem var sex mánaða gömul þegar skjálftinn reið yfir, bjargaðist úr skjálftanum án þess að fá skrámu eftir að stór skápur féll yfir hana þar sem hún lék sér á stofugólfinu heima hjá sér. Saga hennar er m.a. rifjuð upp á sýningunni.

Sýningin, sem nefnist „Skjálftinn 2008“ gerir grein fyrir áhrifunum í Hveragerði og geta gestir meðal annars farið í jarðskjálftahermi og þannig fengið nasasjón af því hvernig það er að upplifa jarðskjálfta af þessari stærðargráðu. Upptök skjálftans voru á tveimur stöðum nálægt Hveragerðisbæ sem færðist, á fjórum sekúndum, heila 20 sentimetra í norðvestur.

Sett hefur verið upp eldhús þar sem glögglega má sjá hvernig aðkoman var í eldhúsum bæjarbúa þennan örlagaríka eftirmiðdag. Einnig má sjá bjarg sem féll úr Reykjafjalli og rót af tré sem soðnaði á hverasvæðinu sem myndaðist í jarðskjálftanum.

Auk þessa eru upptökur úr eftirlitsmyndavélum og ljósmyndir ásamt reynslusögum bæjarbúa til sýnis.

Fjölmargir hafa aðstoðað við gerð sýningarinnar með því að útvega muni og myndir og veita upplýsingar. Meðal þeirra eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Rannsóknarmiðstöð í jarðskjálftaverkfræði og fjölmargir íbúar í Hveragerði og nágrenni. Sýningin er framleidd af Hveragerðisbæ.

Sýningarhönnun annaðist Björn G. Björnsson en Fasteignafélagið REITIR kostaði gerð sýningarinnar.

jardskjalftasyning2600_270911gk_124105052.jpg

jardskjalftasyning3600_270911gk_607452842.jpg

Fyrri greinHurðin farin að snúast
Næsta greinÁtti ekki að hafna Heilögum papa