Jarðskjálfti að stærðinni 5,6 með upptök rúma 6 km norðvestan við Krýsuvík á Reykjanesi kl. 13:43 fannst vel víða á Suðurlandi.
Innbúsmunir vögguðu nokkuð mjúklega á skrifstofu sunnlenska.is í Sandvíkurhreppi en vefurinn hefur fengið tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist vel allt austur í Landeyjar og í uppsveitum Árnessýslu, meðal annars á Laugarvatni.
Þá fannst skjálftinn mjög vel í Þorlákshöfn sem er í um það bil 36 kílómetra fjarlægð frá upptökum hans. Þar var skjálftanum lýst sem kraftmiklum, en mjúkum og minnti á öldugang.
Upptök skjálftans voru í Núpshlíðarhálsi, ofan við Vigdísarvelli. Yfir 100 eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfarið.
Fréttin verður líklega ekki uppfærð