
Jáverk ehf hefur hafið vinnu við byggingu nýja leikskólans við Vallarbraut á Hvolsvelli. Leikskólabyggingin er 1.650 fermetrar að stærð og á verkinu að vera að fullu lokið þann 28. febrúar á næsta ári.
Jáverk átti eina tilboðið í verkið og hljóðaði það upp á rúmar 978,8 milljónir króna. Að sögn Lilju Einarsdóttur, sveitarstjóra, var tilboðið eilítið hærra en áætlaður verktakakostnaður sveitarfélagsins, en eftir gagngera skoðun á gögnum var það mat sveitarstjórnar að ganga samt sem áður að tilboðinu.