„Jóga-helgi með útilegu sjarma”

Um hvítasunnuhelgina, 2.-4. júní, verður boðið upp á svokallað „yoga retreat“ eða jóga-helgi á Traustholtshólma í Þjórsá.

„Þetta verður jóga-helgi með útilegu sjarma,“ segir Sölvi Tryggvason einn af skipuleggjendum jóga-helgarinnar, en þátttakendur gista í tjöldum og verða í einstaklega góðum tengslum við náttúruna á meðan dvalið er á eyjunni.

„Yfir helgina verður boðið uppá dýrindis náttúru- og heilsufæði eins og best gerist, jóga og hugleiðslukennslu. Stokkið verður í kalda ánna og farið í Wim Hof öndun, kvöldvökur og endað á svetti með Tolla. Þetta ætti að verða frábær veisla og í ofanálag er kyrrðin og fegurðin í eyjunni engu lík,“ segir Sölvi, sem stendur að jóga-helginni ásamt Sölva „Avó“ Péturssyni og Hákoni Kjalari Hjördísarsyni.

„Helgin kom þannig til að Sölvi nafni minn og Hákon þekkjast og þeim fannst tilvalið að gera eitthvað saman og smala saman góðum hópi af fólki,“ segir Sölvi, spurður um það hvernig það hafi komið til að þeir félagar ákváðu að halda jóga-helgi á þessum stað.

Sölvi segir að jóga-helgin sé fyrir alla, bæði konur og karla og fólk á öllum aldri.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sölvi kemur að jóga-helgi sem þessari. „Við Sölvarnir höfum haldið sambærilegt ,,retreat“ á Hveravöllum og, já, ef vel gengur er planið að gera þetta aftur,“ segir Sölvi að lokum.

Allar nánari upplýsingar um jóga-helgina má finna á Facebook-síðu viðburðarins.


Sölvi „Avó“ Pétursson og Sölvi Tryggvason.

Fyrri greinVel heppnaður fjölskyldudagur
Næsta greinTryggvagata fræst í dag