Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti á fundi sínum þann 11. desember síðastliðinn að ráða Jóhann G. Jóhannsson í starf íþrótta- og fjölmenningarfulltrúa sveitarfélagsins.
Jóhann var eini umsækjandinn en hann hefur gegnt starfinu í tímabundinni ráðningu frá því í apríl síðastliðnum.
Verkefni Jóhanns eru og verða fjölbreytt. Hann er embættismaður heilsu-, íþrótta og tómstundanefndar, ungmennaráðs og stýrihóps heilsueflandi samfélags. Hann verður einnig embættismaður fjölmenningarráðs sem áætlað er að taki til starfa á fyrri hluta ársins 2025.
Jóhann mun koma að öllum verkefnum sem tengjast íþróttum og æskulýðsstarfi, heilsueflingu og fjölmenningu auk þess að sinna ýmsum öðrum tilfallandi verkefnum.