Byggðaráð Rangárþings ytra samþykkti á fundi sínum í gær að ráða Jóhann G. Jóhannsson sem verkefnisstjóri íþrótta- og fjölmenningarmála í sveitarfélaginu.
Ráðningarsamningurinn er tímabundinn til næstu áramóta en Jóhann hafði þegar farið í gegn um ráðningarferli vegna annars starfs á vegum sveitarfélagsins. Ráðningin verður endanlega staðfest eftir fund sveitarstjórnar og samþykki hennar þann 10. apríl næstkomandi.
Í bókun meirihlutans á fundi byggðaráðs segir að mikil þörf sé á að verkefnum sem tengjast, íþróttum og æskulýðsstarfi, tómstundum, heilsueflandi verkefnum og fjölmenningu verði sinnt vel og því sé lagt til að ráðinn verði tímabundinn verkefnastjóri til að vinna að þessum málefnum. Verkefnið yrði síðan endurmetið við gerð næstu fjárhagsáætlunar og þá tekin ákvörðun um framhald þess. Ef vel tekst til og framhald verður á yrði starfið auglýst frá og með næstu áramótum.
Eydís Indriðadóttir, fulltrúi D-listans í byggðaráði, lét bóka að hún gerði ekki athugasemdir við ráðningu starfsmannsins en tók fram að eðlilegra hefði verið að ganga frá ráðningu í kjölfar auglýsingar þar sem um nýtt verkefni sé að ræða. Meirihlutinn svaraði því og sagði að með tímabundinni ráðningu sé ekki verið að brjóta reglur um opinbera stjórnsýsluhætti.