Jóhanna Bríet kosin Sunnlendingur ársins

Selfyssingurinn Jóhanna Bríet Helgadóttir var kosin Sunnlendingur ársins 2012 af lesendum Sunnlenska og sunnlenska.is. Jóhanna tók ein og óstudd á móti syni sínum þegar hann kom í heiminn þann 7. september síðastliðinn en áður en drengurinn fæddist vissi Jóhanna ekki að hún væri barnshafandi.

„Það er aldeilis,” sagði hin tvítuga Jóhanna Bríet þegar henni var sagt að hún hafði verið kjörin Sunnlendingur ársins.

Jóhanna lá andvaka með magaverki í íbúð sinni á Hvanneyri aðfaranótt 7. september síðastliðins og grunaði ekki að hún myndi liggja á baðherbergisgólfinu með nýfæddan son sinn í fanginu nokkrum klukkutímum síðar. Á þeirri stundu vissi hún ekki að hún væri barnshafandi.

Um sumarið hafði hún verið hjá læknum vegna magaverkja. „Þeir tóku blóðprufu en fundu ekkert að mér, nema að einn setti mig á magasýrulyf. Þau náttúrlega virkuðu ekki neitt,“ segir Jóhanna sem hafði einnig tekið tvö þungunarpróf. Þau voru bæði neikvæð. Hún hafði nýverið hafið nám í Bændaskólanum á Hvanneyri og var búin að vera þar í tvær vikur þegar sá stutti gerði vart við sig.

„Ég var búin að vera með magakveisu nokkrum klukkutímum áður,“ segir Jóhanna sem vildi endilega ná smá svefni áður en skóladagurinn hófst. Ég fór inn á bað og þá fann ég að það var kollur að koma. Ég ætlaði að reyna að láta einhvern vita, en var svo máttfarin að ég náði ekkert að gera og gat ekkert labbað með haus á milli lappanna til að leita að símanum. Þannig að það var ekkert annað í stöðunni en að gera þetta sjálf,“ rifjar hún upp.

Drengurinn hefur braggast vel og móðurhlutverkið hefur farið vel í Jóhönnu. „Það hefur gengið mjög vel. Hann er mjög þægur og góður,“ segir Jóhanna um drenginn sem hefur fengið nafnið Helgi Fannar.

Þátttaka í kosningunni um Sunnlending ársins hefur aldrei verið meiri en af þeim fjölmörgu atkvæðum sem bárust fékk Jóhanna Bríet rúmlega fimmtung. 35 Sunnlendingar komust á blað í kosningunni.

Annar í kjörinu varð knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson frá Selfossi sem var valinn efnilegasti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í sumar og þriðji varð Selfyssingurinn Þórir Hergeirsson sem stýrði norska kvennalandsliðinu í handbolta til gullverðlauna á Ólympíuleikunum í London í sumar.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu sem kemur út föstudaginn 28. desember

Fyrri greinUmgöngumst flugelda með gát
Næsta greinMatthías stal fjórhjóli í Flóanum og ók um uppsveitirnar