Valnefnd Víkurprestakalls hefur valið sr. Jóhönnu Magnúsdóttur í starf sóknarprests í prestakallinu, sem auglýst var á dögunum. Biskup Íslands hefur staðfest ráðninguna.
Sr. Jóhanna er fædd í Reykjavík árið 1961, dóttir Magnúsar Björnssonar og Valgerðar Kristjánsdóttur. Hún ólst upp í Reykjavík þaðan sem hún lauk stúdentsprófi og cand. theol. gráðu frá Háskóla Íslands. Í framhaldi lauk hún kennsluréttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands.
Hún hefur fjölbreytta starfsreynslu, starfaði m.a. sem aðstoðarskólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar í sex ár að loknu háskólaprófi en hæún var vígð sem sérþjónustuprestur til Sólheima í Grímsnesi árið 2015.
Hún hefur síðan sinnt prestsþjónustu í Skálholtsprestakalli, Kirkjubæjarklaustursprestakalli og einnig leyst af í Digranes- og Hjallaprestakalli. Sr. Jóhanna hefur auk þess reynslu af kirkjustarfi, starfað sjálfstætt sem ráðgjafi og unnið við námskeiðahald auk þess að starfa við kennslu fyrir símenntunarmiðstöðvar.
Sr. Jóhanna á þrjú börn og þrjú barnabörn.
Tvær umsóknir bárust og mun Jóhanna hefja störf þann 1. september næstkomandi.