Jóhanna Ýr ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Lágafellssókn

Hvergerðingurinn Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir var nýlega ráðin framkvæmdastjóri Lágafellssóknar í Mosfellsprestakalli, en hún var valin úr hópi 23 umsækjenda. Sem framkvæmdastjóri mun hún koma til með að bera ábyrgð á rekstri sóknarinnar, mannauðsmálum, umsjón með kirkjugörðum, fasteignum og situr sóknarnefndarfundi. Jóhanna Ýr hóf störf nú í byrjun ágúst.

Jóhanna Ýr er með B.A. í guðfræði, diploma próf í kennslufræðum ásamt því að hafa lokið námi í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun frá EHÍ.

Jóhanna Ýr hefur áður unnið við kennslu í Grunnskólanum í Hveragerði og Sunnulækjarskóla á Selfossi, verkefnastjóri fræðslustarfs við Selfosskirkju, framkvæmdastjóri Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, skrifstofustjóri hjá Framsókn ásamt því að vera verkefnastjóri og kosningastjóri fyrir Framsókn í Suðurkjördæmi.

Þá er Jóhanna Ýr bæjarfulltrúi Framsóknar í Hveragerði og fyrrum forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs. Þá situr hún meðal annars í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands og er formaður skólanefndar Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Jóhanna Ýr býr í Hveragerði ásamt sambýlismanni sínum Ara Guðmundssyni og samtals eiga þau sex börn.

Í tilkynningu frá Lágafellssókn segist Jóhanna Ýr vera afar spennt fyrir nýja starfinu, hlakkar til að vinna með samstarfsfólki og sóknarnefnd að þjónustu og frekari uppbyggingu sóknarinnar.

Fyrri greinSökkva sér í þýska ’80s hljóðheiminn í nýju lagi
Næsta greinStórhveli strandað í Skötubótinni