Bandaríska söngvaskáldið John Grant segir í viðtali við breska blaðið The Guardian að þegar hann vilji slaka á „stingi hann af“ til Víkur í Mýrdal.
Grant fluttist til Íslands eftir að hann spilaði á Airwaves tónlistarhátíðinni árið 2011 og hefur í kjölfarið hrifist bæði af landi og þjóð. Hann hefur komið fram með ýmsum íslenskum tónlistarmönnum, svo sem NýDönsk og Helga Björns. Auk þess samdi hann enska texta við lög Ásgeirs Trausta af plötunni Dýrð í dauðaþögn.
Grant kemur víða við í viðtalinu í The Guardian og mælir sérstaklega með Vík í Mýrdal og Byggðasafninu í Skógum.
„Þegar ég vil stinga af þá fer ég til Víkur, það tekur bara tvo klukkutíma að aka þangað. Þar finnur þú glæsilegar strendur með svörtum sandi og ótrúlega fallega kirkju uppi á hæð, sem yfirleitt er umvafin mistri,“ segir Grant og heldur áfram: „Á leiðinni til Víkur er Skógasafn þar sem sjá má hvernig Íslendingar bjuggu áður fyrr. Ef þú ert heppinn þá gæti safnvörðurinn Þórður Tómasson, eldri heiðursmaður með hvítt hár, jafnvel vísað þér um safnið.“