Í gær fór 7. bekkur Hvolsskóla í hina árlegu jökulmælingu á Sólheimajökli. Mælingin gekk vel þrátt fyrir mikla rigningu í byrjun.
Að þessu sinni voru mættir um fimmtíu gestir frá hinum ýmsu löndum til að fylgjast með, annars vegar átján manna hópur frá Norðurlöndunum á vegum Landverndar og hins vegar 28 manns á vegum Katla Geopark. Þótti gestunum mikið til koma hvað krakkarnir stóðu sig vel.
Mælingarniðurstöður eru þær að jökullinn mældist hafa hopað um 16 m og dýpt lónsins var mæld af björgunarsveitarmönnum og er lónið 60 m djúpt við jökulsporðinn, en sá mælingarstaður er aðeins í um tuttugu metra fjarlægð frá mælipunkti síðasta árs.
Því virðist sem lónið sé því dýpra eftir því sem jökullinn hopar meir.
Þetta var í sjötta sinn sem hop jökulsins er mælt, en þetta verkefni Hvolsskóla byrjaði árið 2010. Á þessum tíma hefur Sólheimajökull hopað um hátt í 200 m.