„Jólahefðir mega vera alls konar“

Linda Björk Hilmarsdóttir og Kolbrún Pálína Helgadóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Á morgun, fimmtudaginn 15. desember klukkan 19, verður haldin samverustund í Bankanum vinnustofu að Austurvegi 20 á Selfossi.

Markmið samverustundarinnar er að minnka jólastressið og njóta betur jólahátíðarinnar. Að viðburðinum standa þær Linda Björk Hilmarsdóttir og Kolbrún Pálína Helgadóttir, markþjálfarar með meiru.

Opið og skemmtilegt samtal
„Viðburðurinn varð til eftir mörg ástríðufull samtöl um markþjálfun, manneskjur, óþarfa kröfur sem við setjum á okkur sjálf og leitina að svarinu við því af hverju við gerum það. Á þessum tímapunkti er svo auðvitað auðvelt að tengja þessi málefni beint við jólahátíðina, hefðir, góðar og slæmar og velta því upp hvernig við raunverulega viljum hafa jólin okkar. Úr varð þessi hugmynd að bjóða upp á opið og skemmtilegt samtal með húmor að leiðarljósi yfir allri jóla-vitleysunni sem við höfum látið plata okkur út í,“ segir Kolbrún Pálína þegar sunnlenska.is heyrði í þeim stöllum.

„Selfoss varð fyrir valinu að þessu sinni vegna þess að ég er nýflutt í bæinn og það var löngun mín að tengjast betur inn í samfélagið og gefa af mér hér,” segir Linda Björk

Allt það sem þarf að gera og græja fyrir jólin vill oft lenda á herðum kvenna og segir segja þær að viðburðurinn sé því upphaflega hugsaður fyrir kynsystur sínar. „Við vorum þá kannski helst að hugsa út frá okkar eigin reynslu en fjölskyldumynstrið hefur tekið svo miklum breytingum að auðvitað eru allir velkomnir sem hafa áhuga,” bætir Linda við.

Mikilvægt að bregðast eigin þörfum
Þær Linda og Kolbrún vonast til að samverustundin skili þeim sem hana sækja betri líðan. „Við vonum að þessi stund færi fólk nær sér og að það nái að hlusta betur á sig og bregðist við eigin þörfum yfir jólahátíðina og hugi að því að skapa eigin hefðir, því þær mega vera alls konar. Allra helst vonum við að þessi stund kalli fram smá hlátur og að fólk gleymi sér aðeins í annríkinu.“

„Það er okkar draumur að dreifa markþjálfa fræjum sem víðast á nýju ári og varð þessi viðburður til þegar við vorum að skipuleggja það. Það er aldrei að vita nema við boðum til fleiri viðburða á Selfossi ef áhugi er fyrir því,“ segir þær Linda og Kolbrún að lokum að lokum.

Viðburðurinn á Facebook

Fyrri greinJólabókaupplestur í Bókakaffinu
Næsta grein„Get ekki annað en þakkað öllum fyrir að trúa á þetta fyrirbæri“