Það var mikil og góð stemmning og vel mætt á Jólatorgið á Tryggvatorgi á Selfossi í dag þegar jólasveinarnir mættu í heimsókn og kveiktu á bæjarjólatré Selfyssinga.
Áður en sveinarnir mættu söng Karlakór Selfoss jólalög og boðið var upp á frítt kakó. Bræðurnir þrettán renndu síðan í hlað á fjallarútu yfir Ölfusárbrú og á Tryggvatorg.
Jólatorgið verður opið allar helga fram að jólum, laugardaga og sunnudaga kl. 14-18. Í söluhúsunum verður handverksfólk sem selur brjóstsykur, skartgripi, útskornar vörur, steinakarla, prjónavöru og ýmis konar fallegt handverk.
Hægt verður að kaupa heitt að drekka og eitthvað gott að maula.
Á morgun verður dagskrá á sviðinu á jólatorginu kl. 15 sem hefst með því að ungt tónlistarfólk úr sveitafélaginu skemmtir. Þá stígur líka á svið sigurvegarinn úr söngkeppni Fjölbrautarskóla Suðurlands hún Hulda Kristín ásamt Tómasi Smára og að lokum tekur Matti Matt úr Pöpunum lagið kl. 17.00.
Jólasveinninn verður líka á svæðinu í húsinu sínu á jólatorginu kl. 16-17 og þar verður hægt að spjalla við hann og taka myndir.