Í kvöld kl. 18 verður kveikt á jólaljósunum í Sveitarfélaginu Árborg. Athöfnin hefst kl. 17:30 fyrir framan Ráðhús Árborgar.
Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs, flytur hátíðarávarp, barna- og unglingakór Selfosskirkju syngur sem og þær Hulda Kristín Kolbrúnardóttir og Alexandra Ásgeirsdóttir við undirleik Tómasar Smára Guðmundssonar. Hulda og Alexandra urðu í tveimur efstu sætunum í söngvakeppni Zelsíuz fyrr í haust.
Á slaginu 18:00 mun Perla Dís Ármannsdóttir, yngsta afmælisbarn dagsins í Árborg, kveikja á jólaljósunum ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins. Skátafélagið Fossbúar bjóða gestum og gangandi upp á kakó.
Íbúar eru hvattir til að mæta og taka þátt í upphafi Jóla í Árborg 2011 en Garður jólanna mun síðan opna á nýjum stað í miðbæjargarðinum laugardaginn 10. desember nk. þegar jólasveinarnir koma úr Ingólfsfjalli.