Jólasleðinn sem var tekinn ófrjálsri hendi fyrir utan jólabúðina Mistiltein í miðbæ Selfoss aðfaranótt 15. október síðastliðinn er kominn í leitirnar.
„Sleðinn er fundinn þökk sé fjölda ábendinga. Hann er því miður ónýtur en sökudólgurinn sér eftir þessu og ætlar að greiða kostnað við smíði á nýjum sleða,“ segir Ólafur Hlynur Guðmarsson, eigandi Mistilteins, í samtali við sunnlenska.is.
Jólasleðinn var afar vinsæll viðkomustaður í miðbænum og vinsæll til myndatöku. Gestir miðbæjarins geta því fljótlega glaðst yfir því að nýr sleði verði kominn á stéttina fyrir utan Mistiltein.