Jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli létu rigninguna ekki stöðva sig í því að renna yfir Ölfusárbrú til þess að heilsa upp á krakkana í miðbæ Selfoss í dag.
Mikill mannfjöldi beið eftir bræðrunum sem mættu á ljósaskreyttum 71 árs gömlum Dodge Weapon frá Guðmundi Tyrfingssyni. Þeir heilsuðu upp á börnin, sem höfðu margs að spyrja enda stutt í jólin og spenningurinn mikill.
Bræðurnir sungu og sprelluðu á Brúartorgi og héldu síðan aftur upp í fjall enda mikið að gera hjá þeim þessa dagana. Í kvöld er komið að Þvörusleiki að bregða undir sig betri fætinum og gefa gjafir í skóinn.




