Jólasveinarnir koma á Selfoss

Jólasveinarnir koma yfir Ölfusárbrú árið 2019. Síðan hefur lítið sést til þeirra saman í hóp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Laugardaginn 14. desember næstkomandi munu jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli koma til byggða og heilsa upp á bæjarbúa og nærsveitunga við Tryggvatorg á Selfossi.

Dagskráin hefst kl. 15:45 með flutningi nokkurra jólalaga og klukkan 16:00 koma jólasveinarnir akandi yfir Ölfusárbrúna. Þá verður sungið og trallað og haft gaman. Vonast sveinarnir til að sem flestir komi og taki þátt í gleðinni og klæðist jólasveinabúningum eða jólasveinahúfum. Boðið verður upp á frítt kakó á torginu.

Ungmennafélag Selfoss mun aðstoða jólasveinana fyrir þessi jól eins og áður og verða þeim innan handar með allt sem snýr að jólasveinamálum. Má þar nefna að taka niður pantanir á jólaböll eða heimsóknir og einnig hina ómissandi pakkaþjónustu, en jólasveinarnir hafa lengi séð um að bera út pakka á aðfangadagsmorgun milli kl. 10:00-13:00. Tekið er á móti litlum pökkum í Tíbrá, félagsheimili Umf. Selfoss á Þorláksmessu milli kl. 18:00-21:00. Nánari upplýsingar og pantanir eru í síma 894-5070 eða í netfanginu umfs@umfs.is.

Fyrri greinYfir 300 börn í jólasýningu fimleikadeildar Selfoss
Næsta greinKom akandi undir áhrifum til skýrslugjafar hjá lögreglu