Það var heldur betur góð stemmning í miðbæ Selfoss í dag þegar jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli renndu yfir Ölfusárbrú til þess að heilsa upp á krakkana.
Mikill mannfjöldi beið eftir bræðrunum sem mættu á 70 ára gömlum Dodge Weapon frá Guðmundi Tyrfingssyni. Þeir heilsuðu upp á börnin sem höfðu margs að spyrja enda stutt í jólin og spenningurinn mikill.
Bræðurnir sungu og sprelluðu á Brúartorgi og héldu síðan aftur upp í fjall en á mánudagskvöld bregður Stekkjastaur undir sig betri fætinum og heldur aftur af stað til byggða, fyrstur þeirra bræðra.


