Lesendur sunnlenska.is kusu knattspyrnumanninn Jón Daða Böðvarsson frá Selfossi Sunnlending ársins 2016.
Jón Daði var lykilmaður í landsliði Íslands í knattspyrnu sem komst í átta liða úrslit á Evrópumeistaramótinu í Frakklandi í sumar. Jón Daði var byrjunarliðsmaður í öllum leikjum Íslands og skoraði meðal annars í leiknum eftirminnilega gegn Austurríki þar sem liðið tryggði sér sæti í sextán liða úrslitum.
Árið var viðburðaríkt hjá Jóni Daða en hann flutti til Þýskalands í ársbyrjun og lék með Kaiserslautern í 2. Bundesligunni þangað til hann var seldur til Úlfanna í Championship-deildinni á Englandi í ágúst. Þar sló hann strax í gegn með því að skora mark í sínum fyrsta leik en Jón Daði er í uppáhaldi hjá mörgum stuðningsmönnum liðsins.
Þetta er sjöunda árið í röð sem lesendur sunnlenska.is kjósa Sunnlending ársins og þátttakan hefur aldrei verið meiri. Alls fékk 31 Sunnlendingur atkvæði í kjörinu að þessu sinni.
Annað árið í röð varð Þórir Hergeirsson, þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta, í 2. sæti í kjörinu en hann hefur verið í topp þremur í kosningunni í fjögur skipti á síðustu fimm árum. Þriðja varð svo Ágústa Arna Sigurdórsdóttir, sem lamaðist í alvarlegu slysi á Selfossi í sumar.