Jón Ingileifsson bauð lægst í stækkun hitaveitu

Höfn í Hornafirði. Ljósmynd/RARIK

Jón Ingileifsson ehf. á Svínavatni í Grímsnesi átti lægsta tilboðið í stækkun hitaveitu Rarik á Höfn í Hornafirði, en tilboð voru opnuð í síðustu viku.

Tilboð Jóns Ingileifssonar hljóðaði upp á 140,2 millljónir króna en kostnaðaráætlun Rarik var 112,3 milljónir króna.

Fjögur önnur tilboð bárust í verkið. Gröfuþjónusta Olgeirs bauð 146,3 milljónir króna og átti einnig frávikstilboð upp á 150,9 milljónir króna, Línuborun ehf bauð 160,4 milljónir og Rósaberg ehf 171 milljón króna.

Þessi verkáfangi var áður boðinn út á vormánuðum 2020 en ekkert tilboð barst í verkið þá. Í tilkynningu frá Rarik segir að það sé ánægjulegt að nú hilli undir að framkvæmdir geti hafist, þegar farið hefur verið nánar yfir tilboðin og samningur við verktaka liggur fyrir. 

Ný hitaveita RARIK hefur þegar verið tekin í notkun á Höfn fyrir hús sem áður voru tengd fjarvarmaveitu fyrirtækisins en þau fá nú heitt vatn um 20 km lögn sem RARIK lagði til Hafnar frá jarðhitasvæðinu á Hoffelli í Nesjum. 

Í haust þegar þessum nýja verkáfanga er lokið gefst heimilum, sem áður voru kynnt með rafmagni, kostur á að tengjast hitaveitunni.

Fyrri greinRafmagnslaust í Löndunum
Næsta greinÞetta þarf ekki að vera svona flókið!