Jón G. Valgeirsson, fyrrverandi sveitarstjóri í Hrunamannahreppi, hefur verið ráðinn sveitarstjóri Rangárþings ytra.
Jón, sem er lögfræðingur að mennt, er 54 ára, fæddur og uppalinn í Þverspyrnu í Hrunamannahreppi. Hann hefur verið sveitarstjóri Hrunamannahrepps undanfarin 15 ár og hefur því mikla reynslu af málefnum og stjórnsýslu sveitarfélaga, auk þess að hafa komið að og stýrt fjölmörgum verkefnum á vegum Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.
Jón er í sambúð með Guðbjörgu Viðarsdóttur, kennara frá Svanavatni í Austur-Landeyjum, og eiga þau saman tvö hálfuppkomin börn. Jón mun hefja störf þann 15. ágúst næstkomandi og stefnir fjölskyldan á að flytja í sveitarfélagið þegar hentugt húsnæði finnst. Ráðningarsamningur tekur formlega gildi þegar hann hefur verið staðfestur á fundi sveitarstjórnar.
„Ég er þakklátur og auðmjúkur fyrir að hafa verið treyst fyrir svo mikilvægu starfi fyrir samfélagið hérna. Það eru mörg spennandi verkefni framundan í sveitarfélaginu sem er í örum vexti og á sannarlega framtíðina fyrir sér. Ég hlakka til að takast á við verkefnin, sem framundan eru og setja mig inn í rekstur sveitarfélagsins sem og heyra í starfsfólki, íbúum, forsvarsmönnum atvinnulífsins og samfélaginu öllu um það helsta sem á þeim brennur,“ segir Jón.
Í tilkynningu frá sveitarfélaginu býður Eggert Valur Guðmundsson, oddviti sveitarstjórnar, Jón og fjölskyldu velkomin í sveitarfélagið. „Við erum mjög ánægð að fá Jón til starfa fyrir sveitarfélagið okkar og væntum mikils af hans störfum á næstu árum,“ segir Eggert Valur.