Einn Sunnlendingur var meðal verðlaunahafa á nýsveinahátíð Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík sem haldin var í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur um síðustu helgi.
Þar fékk Selfyssingurinn Jón Steingrímur Kjartansson frá Vaðnesi í Grímsnesi silfurverðlaun nýsveina í húsasmíði. Jón lauk sveinsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands en meistari hans var Sigurður heitinn Guðmundsson í SG.
Nýsveinahátíðin er árlegur viðburður sem nú var haldin hátíðleg í níunda skipti. Þar hljóta sveinsprófshafar viðurkenningar fyrir afburða vel útfært sveinsprófsverkefni.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og verndari hátíðarinnar, afhenti nítján nýsveinum verðlaun við þetta tilefni.