Halldór Páll Halldórsson, skólameistari við Menntaskólann að Laugarvatni, verður í leyfi til 31. desember næstkomandi. Staðgengill hans síðastliðið skólaár, Jóna Katrín Hilmarsdóttir, verður starfandi skólameistari á nýhafinni haustönn.
„Það leggst vel í mig að taka við þessu verðuga verkefni en það er vissulega bæði flókið og vandasamt í núverandi ástandi,“ segir Jóna Katrín í samtali við sunnlenska.is
Þess má geta að Jóna Katrín er fyrsta konan í langri sögu skólans til að gegna þessu embætti.
COVID hefur haft mikil áhrif á skólastarfið
„Í Menntaskólanum að Laugarvatni leggjum við okkur fram um að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks en ekki síður að tryggja faglega og góða menntun ML-inga. COVID ástandið hefur nú þegar haft mikil áhrif á skólastarfið og mun gera það áfram í vetur ef fram heldur sem horfir,“ segir Jóna.
„Ég er ánægð og stolt af nemendunum og kennurunum sem takast á við verkefni vetrarins, sem bæði snúa að námi og sóttvörnum, með bros á vör og allir gera sitt besta. Það er svo mikilvægt að við séum dugleg að hvetja og styðja hvert annað í gegnum þennan komandi Covid-vetur og styðjum unga fólkið í því að takast á við breytta tíma og hvetja þau til dáða í náminu,“ segir Jóna að lokum.
Nánast allir í skólakórnum
Nemendur við ML eru alls 144 í vetur. Mikil aðsókn var inn á fyrsta árið í haust og er því skólinn með stútfulla bekki bæði á félags- og hugvísindabraut og náttúruvísindabraut. Vert er að geta þess að 90% nemenda við skólann eru skráðir í skólakórinn, sem hlýtur að vera einhvers konar heimsmet.