Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Jónu Katrínu Hilmarsdóttur í embætti skólameistara Menntaskólans að Laugarvatni til fimm ára frá 15. febrúar næstkomandi.
„Tilfinningin er góð. Ég hef haft 18 mánuði í starfinu til að venjast því og læra á ýmislegt og nú finnst mér ég geta hellt mér í starfið af fullum krafti. Ég hlakka mikið til næstu fimm ára með öflugum hópi fagmanna sem starfa við ML og með öllum ML-ingum, nær og fjær,“ sagði Jóna Katrín í samtali við sunnlenska.is, aðspurð um það hvernig starfið leggðist í hana.
Jóna Katrín lauk B.A.-prófi í ensku í júní 2007 og M.Paed-prófi í sama fagi árið 2010 við Háskóla Íslands. Þá lauk hún kennslufræðinámi til kennsluréttinda á meistarastigi við Háskóla Íslands árið 2010. Jóna Katrín er með viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu frá árinu 2020 og hefur lokið hluta af námi á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands með áherslu á stjórnun menntastofnana.
Jóna Katrín hefur starfað við menntamál frá árinu 2007, bæði í grunn- og framhaldsskóla. Hún kenndi ensku á námskeiðum fyrir fullorðna og fyrir fólk í atvinnuleit við Fræðslunet Suðurlands árin 2008–2010. Þá hefur Jóna Katrín starfað við Menntaskólann að Laugarvatni frá árinu 2010 sem enskukennari, fagstjóri og áfangastjóri. Auk þess starfaði hún sem aðstoðarskólameistari skólans frá apríl 2021 til mars 2022 og hefur tvívegis starfað sem settur skólameistari, annars vegar frá september 2020 til og með mars 2021 og hins vegar frá mars 2022 til og með janúar 2023.
Tveir umsækjendur sóttu um embættið.