Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka

Jónsmessuhátíð verður haldinn á Eyrarbakka laugardaginn 21. júní í fimmtánda skipti. Hápunktur hátíðarinnar er Jónsmessubrennan í fjörunni.

Dagurinn byrjar með viðburðum fyrir fjölskylduna, m.a. kemur Brúðubíllinn í heimsókn, hoppukastali og andlitsmálun verður í boði.

Síðan má kíkja í heimsókn til valinkunnra Eyrbekkinga – Ellu og Vigfúsar í Garðshorni, Margrétar og Sverris í Bakaríinu, Eygerðar og Erlings í Simbakoti og Ástu Kristrúnar og Valgeirs í Bakkastofu.

Konubókastofan í Blátúni dregur fram rómantískar ástarsögur í tilefni Jónsmessunnar. Byggðasafn Árnesinga og Sjóminjasafnið bjóða frían aðgang. Rauða húsið verður með sérstakt Jónsmessutilboð.

Kvöldið hefst svo með hópsöng í Húsinu, hinu fornfræga Kaupmannshúsi, og hápunktur hátíðarinnar er Jónsmessubrennan í fjörunni. Fólk gleðst saman og fagnar bjartri sumarnóttinni við ljúfa tóna Bakkabandsins í bland við nið hafsins.

Hátíðin endar svo á Jónsmessudansleik í Hótel Bakka – gamla frystihúsinu. Aldurstakmark er 18 ár.

Eyrbekkingar vonast til þess að sjá sem flesta á Bakkanum á Jónsmessuhátíðinni 2014. Nánari dagskrá er birt á www.eyrarbakki.is.

Fyrri greinÁgúst nýr sveitarstjóri Rangárþings ytra
Næsta greinLandsmót Fornbílaklúbbsins sett