Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka á laugardag

Laugardaginn 25. júní verður Jónsmessuhátíðin á Eyrarbakka haldin í átjánda sinn, en hátíðin var fyrst haldin árið 1999. Að þessu sinni verður margt í boði eins og endranær.

Skógræktarfélag Eyrarbakka verður með kynningu á svæði félagsins í Hallskoti norðan við Eyrarbakka og býður þar upp á morgunhressingu kl. 9:15. Þá kemur hinn sívinsæli Brúðubíll í heimsókn að Sjóminjasafninu kl. 11 og þar verður jafnframt ýmislegt í boði fyrir ungu kynslóðina.

Þá ætla góðir Eyrbekkingar að bjóða fólki í heimsókn til sín í tilefni dagsins. Elínbjörg og Vigfús í Garðshorni verða með hádegishressingu; Anný og Valgeir á Háeyrarvöllum 32 bjóða upp á ljósmyndasýningu; Margrét og Pétur í Hausthúsum – Eyrargötu 37 – spjalla við gesti á palli; og Kristín og Max hafa opna vinnustofu listamanna í Garðbæ – Eyrargötu 73.

Söfnin á Eyrarbakka verða opin og þar eru fjölbreyttar sýningar og áhugaverðar. Í Kirkjubæ verður boðið upp á veitingar að hætti Guðrúnar húsfreyju. Ókeypis aðgangur er að söfnunum þennan dag.

Valgeir Guðjónsson flytur dagskrá sína Saga Music í gamla Gónhól í frystihúsinu, sem byggð er á persónulýsingum úr Íslendingasögunum. Aðgangur kr. 1.000.

Síðdegis mun DJ Sveppz sjá um diskótek fyrir yngri kynslóðin við Sjóminjasafnið.

Einn allra vinsælasti dagskrárliður Jónsmessuhátíðarinnar undanfarin ár hefur verið samsöngurinn í betri stofu Hússins undir stjórn Heimis Guðmundssonar. Söngurinn hefst kl. 20:15 og þar syngur hver með sínu nefi.

Verslanirnar Bakki og Laugabúð verða opnar. Einstakur Jónsmessubókamarkaður verður í bókadeildinni í Laugabúð allan daginn.

Veitingahúsið Rauða húsið verður með sérstök Jónsmessutilboð á hátíðinni og það verður opið í kjallaranum um kvöldið.

Jónsmessuhátíðinni lýkur svo með brennu og söng í fjörunni vestan við þorpið kl. 22. Þar mun Sandra Dís Hafþórsdóttir ávarpa gesti og Bakkabandið sér svo um fjörið.

Nánari dagskrá á www.arborg.is og www.eyrarbakki.is.

Fyrri greinGB bílar og Vatnsholt 3 fengu umhverfisverðlaun
Næsta greinLítið hlaup í Múlakvísl