Sunnlendingar urðu margir hverjir hressilega varir við jarðskjálfta kl. 13:10 í dag. Skjálftinn var 3,7 að stærð og voru upptök hans við Grænhól í Ölfusi, 4 km frá Hveragerði.
Á Selfossi og í Hveragerði hristust hús harkalega en skjálftinn virkaði eins og duglegt högg á hús og honum fylgdu drunur bæði á undan og eftir.
Einhverjir eftirskjálftar hafa orðið og í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að þess sé að vænta að slíkir skjálftar verði viðvarandi í einhvern tíma.
Skjálftinn fannst vel allstaðar í Flóanum en samkvæmt upplýsingum sunnlenska.is fannst skjálftinn vel í Grímsnesinu, á Laugarvatni, í Holtum og allt austur á Hellu. Sunnlenska.is hefur einnig fengið tilkynningar um skjálftann frá Mosfellsbæ, Álftanesi – og Hafnarfirði.