Leikskólinn Jötunheimar á Selfossi fékk á dögunum hvatningarverðlaun Lubba, en Lubbi er námsefni í leikskólum þar sem unnið er með málhljóð og læsi.
Í lok ágúst var námskeiðið Málið á flug með Lubba haldið á Grand hótel í Reykjavík. Að námskeiðinu stóðu höfundar námsefnisins Lubbi finnur málbein, þær Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir.
Þar komu saman aðilar sem standa að læsi barna, kennarar, talmeinafræðingar og foreldrar. Fjallað var um fjölbreytta vinnu með málhljóð og læsi með börnum þar sem námsefnið með Lubba var í aðalhlutverki.
Þær Katrín Þorvaldsdóttir og Þórdís Guðrún Magnúsdóttir leikskólakennarar í Jötunheimum héldu fyrirlestur um hvernig unnið er með Lubbanámsefnið á Jötunheimum og stóðu sig með mikilli prýði. Þær sýndu í máli og myndum hvernig notkun námsefnisins hefur þróast á þeim árum sem það hefur verið notað í skólanum.
Nokkrum dögum eftir námskeiðið höfðu höfundar Lubba samband við þær Katrínu og Þórdísi og veittu þeim og Jötunheimum hvatningarverðlaun Lubba þar sem fyrirlestur þeirra var til fyrirmyndar og sýndi vel hvernig hægt er að vinna með námsefnið í leikskólum. Í verðlaun fékk leikskólinn allar hljóðasmiðjur Lubba sem gefnar voru út í byrjun þessa árs.
Lubbaverkefnið byrjaði smátt á Jötunheimum, aðeins á einni deild. En þegar í ljós kom hversu vel efnið höfðaði til barnanna var ákveðið að þróa það á öllum yngri deildunum. Á síðasta skólaári var farið að nota námsefnið á öllum deildum og það útfært eftir aldri og áhuga barnanna.