Guðmundur Þór Guðjónsson, fjármálastjóri Jötunn véla ehf á Selfossi, kom færandi hendi á skrifstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands í dag og gaf stofnuninni nýjan iPad.
Fram kom hjá Guðmundi að iPadinn sé hugsaður fyrir þá skjóstæðinga HSu, sem þurfa að dvelja dagspart á nýju göngudeildinni á Selfossi, meðan þeir annaðhvort eru þar í lyfjagjöf, blóðgjöf eða blóðskilun. iPadinn myndi þá stytta stundirnar fyrir sjúklingana meðan á dvöl þeirra stendur.
Jötunn vélar komu að fyrstu söfnun sem haldin var fyrir nýju göngudeildina og gáfu þá 40.000 kr. til deildarinnar. Jötunn vélar ásamt fleiri fyrirtækjum stóðu þá fyrir Sunnlenska sveitadeginum þar sem kálfurinn Hvíti Gauti var boðinn upp að beiðni Guðbjargar Jónsdóttur ekkju Gauta Gunnarssonar á Læk.