Jötunn vélar opna á Egilsstöðum

Finnbogi Magnússon, framkvæmdastjóri Jötunn véla, var ánægður með viðtökur Héraðsbúa þegar fyrirtækið opnaði nýjustu verslun sína á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Verslunin er sú þriðja í röðinni, sú fyrsta er á Selfossi en fyrir tveimur árum var opnað á Akureyri. Þar störfuðu fyrst þrír starfsmenn eru í dag orðnir sex. „Við höfum verið að þróa búðirnar. Þetta eru verslanir þar sem bóndinn og þéttbýlisbúinn finnur breitt og áhugavert vöruúrval á samkeppnishæfu verði,“ sagði Finnbogi í samtali við Austurgluggann.

Finnbogi segir Jötunn vélar árum saman hafa verið með umtalsverð umsvif á Austurlandi meðal bænda sem noti margir hverjir vélar og tæki frá fyrirtækinu. Samningur hefur verið við MSV á Egilsstöðum um verkstæðisþjónustu en þessi umsvif hafa nú þróast yfir í búðina.

„Við viljum geta þjónustað viðskiptavini okkar, sem eru aðallega bændur, en við erum líka að koma með vörur sem þéttbýlisbúar sjá sér hag í að kaupa, svo sem leikföng og gæludýravörur. Við eigum eftir að sjá hvernig vöruúrvalið þróast. Það veltur á viðtökunum, hverju fólk óskar eftir. Við þekkjum ekki svæðið og þróum búðina eftir því sem við lærum á óskir fólksins á svæðinu.“

Verslunin deilir húsnæði með Bón- og pústþjónustunni sem Björgvin Elísson rekur. „Við Björgvin erum skólabræður frá Hvanneyri, við útskrifuðumst þaðan saman fyrir 20 árum og þau hafa verið okkur mjög hjálpleg.“

Fyrri greinDagbók lögreglu: Fimm teknir ölvaðir undir stýri
Næsta greinÁsættanlegur námsárangur hjá föngum