JYSK opnar aftur eftir breytingar

Björgvin Þór Smárason og Guðrún Þóra Guðmundsdóttir, verslunarstjórar JYSK á Selfossi, ásamt Birni Inga Vilhjálmssyni, framkvæmdastjóra JYSK á Íslandi. Þau voru vonum kát þegar sunnlenska.is kíkti við í dag enda er það mál manna að breytingarnar hafi heppnast gífurlega vel. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Verslunin JYSK opnaði aftur í morgun að Austurvegi 3-5 á Selfossi eftir gagngerar breytingar.

„Svona breytingar eiga sér langan aðdraganda og mikla skipulagningu sérstaklega þegar breytingin er framkvæmd meðan verslunin er opin. Við hófum framkvæmdir í byrjun ágúst þegar við skiptum um gólfefni á 30% af versluninni okkar og komum upp nýju hilluefni á fyrsta hluta. Verkinu var skipt í fjóra hluta og hefur gengið gríðarlega vel með enda frábær hópur sem vinnur hjá JYSK Selfossi,“ segir Björn Ingi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri JYSK á Íslandi, í samtali við sunnlenska.is.

JYSK 3.0
Björn segir að þau hafi í raun breytt öllu í versluninni. „Við breyttum gólfefninu, lýsingunni og settum nýtt hilluefni ásamt því að bæta aðstöðu starfsfólks og verslunarstjóra til muna. Við erum að uppfæra verslunina í JYSK 3.0 útlit sem er það nýjasta frá frændum okkar í Danmörku, þar sem unnið er að því að upplifun viðskiptavina okkar verði sem best.“

„JYSK 3.0 gefur okkur færi á að sýna okkar frábæru vörur í nýju og skemmtilegra ljósi í skemmtilegra umhverfi. Einnig mun ný verslun bjóða upp á enn meira og flottara vöruúrval fyrir íbúa Selfoss og nágrennis.“

Raunverulegur vöxtur hófst í núverandi húsnæði
JYSK opnaði fyrst á Selfossi árið 2012, þá undir nafni Rúmfatalagersins. Verslunin var fyrst til húsa að Austurvegi 69 en flutti í núverandi húsnæði árið 2016.

„Verslunin á Selfossi hefur gengið vel alveg frá byrjun. Það varð þó raunverulegur vöxtur þegar við komumst í núverandi húsnæði ásamt frábærum nágrannaverslunum okkar, Krónunni, Nova og Apótekaranum. Sveitarfélagið hefur stækkað hratt og við ætlum okkur að stækka með og bjóða upp á glæsilegustu verslunina á svæðinu.“

„Verslunarstjórarnir Björgvin Þór og Guðrún Þóra og starfsfólk JYSK hafa staðið sig eins og hetjur í þessum krefjandi aðstæðum. Þetta er gríðarlega samstilltur hópur með metnað og þjónustu að leiðarljósi fyrir viðskiptavini okkar. Ég er gríðarlega stoltur af þeim öllum og glæsilegri verslun,“ segir Björn að lokum.

Fyrri greinKýr aflífuð eftir ákeyrslu
Næsta grein„Treystum á Selfyssinga að fjölmenna“