Kæru vegna Þorláksbúðar vísað frá

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vísaði í dag frá kæru erfingja Harðar Bjarnasonar, arkitekts Skálholtsdómkirkju, á ákvörðun byggingarnefndar Bláskógabyggðar um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja yfir Þorláksbúð.

Kæran var lögð fram 15. nóvember síðastliðinn. Úrskurðarnefndin segir að ekki verði ráðið af kærunni „hvort hin kærða ákvörðun sé talin samþykkt sveitarstjórnar frá 23. apríl 2010 eða leyfi byggingarfulltrúa frá 4. nóvember 2011, en unnt þykir að leysa úr málinu þrátt fyrir þennan annmarka á kærunni“.

Úrskurðarnefndin rekur hvernig sveitarstjórn veitti byggingarleyfi til að hlaða upp og byggja yfir Þorláksbúð 23. apríl 2010. Nefndin taldi kæruna snúa að þessari ákvörðun. Hún bendir á að kærufrestur hafi verið einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina vegna þeirra framkvæmda sem áttu sér stað sumarið 2010 en þá um haustið var nokkur umfjöllun um Þorláksbúð í fjölmiðlum. Var kærufrestur vegna ákvörðunar sveitarstjórnar frá 23. apríl 2010 því liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Fyrri greinÞórsarar fyrstir til að sigra toppliðið
Næsta greinÚtgáfukynning á Hellu