Um helgina hefur lögreglan á Suðurlandi kært 21 ökumann fyrir of hraðan akstur í umdæminu. Sá sem hraðast ók var á 133 km/klst hraða auk þess sem einn ökumannanna var stöðvaður fyrir að aka á 94 km/klst þar sem hámarkshraði er 50 km/klst.
Þrír ökumenn voru kærðir grunaðir um að vera undir áhrifum vímuefna og tveir ökumenn eru grunaðir um að hafa ekið undir áhrifum áfengis.
Tveir ökumenn voru kærðir fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu og einn ökumaður fyrir að virða ekki biðskyldu.
Tveir voru teknir próflausir og hafði annar þeirra verið sviptur ökuréttindum. Bílstjóri í farþegaflutningum var einnig stöðvaður þar sem í ljós kom að hann hafði ekki réttindi til að aka ökutæki í farþegaflutningum auk þess sem ekkert rekstrarleyfi var til staðar. Þá voru tveir ökumenn kærðir fyrir að nota ekki ökuritaskífu eða ökumannskort við akstur.
Auk allra þessara umferðarlagabrota þá var lögreglan kölluð út vegna eins heimilisofbeldismáls um helgina.