Kafarinn á gjörgæsludeild

Konan sem flutt var á sjúkrahús eftir köfunarslys í Silfru í dag liggur nú á gjörgæsludeild Landspítalans. Rannsókn lögreglu er ólokið.

Fram kemur á mbl.is að konan hafi farið í háþrýstimeðferð í sérstökum þrýstiklefa við komuna á sjúkrahús. Vakthafandi læknir segir líðan hennar eftir atvikum góða.

Lögreglan á Selfossi sér um rannsókn málsins. Samkvæmt upplýsingum þaðan var konan við köfun á um 12-18 metra dýpi, þegar slysið átti sér stað. Í fyrstu beindist rannsókn lögreglu m.a. að hugsanlegri bilun í köfunarbúnaði konunnar en nú virðist sem um mannleg mistök sé að ræða.

Læknir, sem staddur var skammt frá þegar slysið átti sér stað, gat veitt konunni aðstoð uns björgunarlið mætti á vettvang.

Frekari upplýsingar um málið liggja ekki fyrir að svo stöddu og er rannsókn lögreglu ólokið.

Fyrri greinÞórsarar snöggkældu KR-inga
Næsta greinKjartan kveður FSu