Fimmtudaginn 5. mars ætlar starfsfólk útibús Landsbankans á Selfossi að bjóða upp á kaffi og kökur á opnunartíma útibúsins frá kl. 9 til 16.
Tilefnið er að fagna því með viðskiptavinum að Landsbankinn mældist efstur banka í Íslensku ánægjuvoginni. Allir eru velkomnir!
Rúmlega öld er liðin frá því að Landsbankinn opnaði útibú á Selfossi. Útibúið var fyrst í Tryggvaskála, síðan að Austurvegi 21 en flutti árið 1953 yfir götuna í Landsbankahúsið að Austurvegi 20.
„Nýlega voru gerðar breytingar í útibúinu sem fólust m.a. í því að möguleikum til sjálfsafgreiðslu var fjölgað. Í útibúinu eru hraðbankar sem nota má til innlagna og úttekta á reiðufé, til að greiða reikninga og kaupa erlendan gjaldeyri í fjórum myntum. Í útibúinu er sem fyrr lögð mikil áhersla á að viðskiptavinir fái persónulega þjónustu hjá gjaldkerum, þjónustufulltrúum og öðru starfsfólki,“ segir í tilkynningu frá bankanum.