Vel hefur tekist með flutning leikskólans í Vík í Mýrdal að mati Elínar Einarsdóttur oddvita. Flutningurinn fór fram í nóvember og starfsemin færð í húsnæði grunnskólans.
Verið er að ganga frá viðbyggingu til að bæta aðstöðu leikskólans.
„Við förum vonandi að sjá á bókhaldinu hagræðingu sem í þessu felst,“ segir Elín. Hún segir möguleikana felast í að samnýta bæði starfsfólk og aðstöðu.
Skólinn var áður í Suður-Vík en hreppurinn seldi það húsnæði til Óðins Gíslasonar og eiginkonu hans, og Þorgerðar systur hans.
Óðinn segir stefnuna að opna kaffihús í húsinu í apríl, a.m.k. neðri hæðina, en húsið er á tveimur hæðum.