Kálfhólar var útnefnd skemmtilegasta gatan á Selfossi í ár, á bæjarhátíðinni Sumar á Selfossi í kvöld. Miðbæjargarðinum var formlega gefið nafnið Sigtúnsgarður.
Hinn árlegi sléttusöngur fór fram í miðbæjargarðinum í kvöld og lauk honum með miklum hvelli þegar Bílverk BÁ bauð bæjarbúum og gestum þeirra upp á flugeldasýningu. Ingólfur Þórarinsson stjórnaði sléttusöngnum af miklum myndarskap.
Í upphafi samkomunnar tilkynnti Kjartan Björnsson, formaður íþrótta- og menningarnefndar Árborgar, um nafn á miðbæjargarðinn en fjöldi tillagna barst síðustu daga eftir að auglýst var eftir nafni. Niðurstaðan var sú að garðurinn heitir nú Sigtúnsgarður.
Þá var tilkynnt um úrslit í skreytingasamkeppni Sumars á Selfossi. Bleika hverfið var valið best skreytta hverfið, Kálfhólar (í bleika hverfinu) skemmtilegasta gatan og Bakkatjörn 9, hjá Önnu Margréti Magnúsdóttur og Magnúsi Hlyni Hreiðarssyni, var með skemmtilegustu skreytinguna.
Í nótt er ball í miðbæjargarðinum með Stuðlabandinu, Skítamórall spilar í Hvítahúsinu, Stórsveit Leifs Viðarssonar á 800Bar og á Fróni.
Sumar á Selfossi lýkur á morgun með hinum árlega bíladelludegi en dagskráin hefst kl. 13 í Hrísmýri.