„Nú þarf ég ykkar hjálp. Ég ætla mér byggja nýtt hús fyrir krakkana mína í Suður-Afríku,“ segir Vigfús Blær Ingason, knattspyrnumaður á Hvolsvelli, en leikskóli sem hann vann á í Suður-Afríku í vetur brann til grunna í síðustu viku.
„Ég tók þá skyndiákvörðun um miðjan janúar að fara út. Þetta var hugmynd á mánudegi og á þriðjudegi var ég búinn að bóka og borga allt. Ég vann á leikskóla sem heitir Masincedisane, sem er dagvistun fyrir mjög illa stæð börn í þorpinu Masephumelele,“ segir hann.
Leikskólinn þar sem Vigfús var við störf er í einu af slæmu þorpunum í Suður-Afríku þar sem HIV tíðni er há, sem og ofbeldis- og kynferðisglæpir. „Skólinn sjálfur var líka einn af þeim fátækustu í þessu fátæka þorpi,“ segir Vigfús Blær. Húsið hafi verið byggt úr ýmsu drasli, svo sem pappakössum og vörubrettum. „Krakkarnir á leikskólanum lifa erfiðu lífi og eina uppspretta jákvæðrar orku í þeirra lífi er þessi leikskóli, þótt hann hafi nú ekki verið flottur,“ segir Vigfús.
Eftir að leikskólinn brann standa börnin uppi án húsnæðis en Vigfús segir að þökk sé snöggum viðbrögðum sjálfboðaliðanna sem eru þarna núna hafi öll börnin sloppið frá eldinum. Hann segir að börnin séu nú í ömurlegri stöðu.
„Þau þurfa núna að eyða deginum með foreldrum og forráðamönnum sem eru oftar en ekki illa veikir og áfengissjúkir,“ segir Vigfús Blær um börnin, sem hann þekkir mörg hver vel. „Á meðan á dvöl minni þarna úti ákvað ég að ég skyldi hefja söfnun fyrir nýrri byggingu handa þeim, því þetta er er virkilega ódýrt fyrir okkur Íslendinga. Þegar ég svo heyrði af brunanum fór ég á fullt í fjáröflun fyrir þessu því mig langar að skila peningunun fyrir góðu, öruggu húsi með salernisaðstöðu, áður en að þau byrja að byggja annan kofa eins og sá seinasti var, 5×5 metra herbergi með fötu í horninu í hlutverki klósetts.
Vigfús Blær lýsir aðstöðu barnanna í húsinu sem ömurlegri. „Á leikskólanum eru 60 börn og þegar það eru 60 börn inni í 25 fermetra herbergi í 40 gráðu hita og að sjálfsögðu engin loftræsting þá sést vel hversu mikilvægt það er að hjálpa þeim að byggja nýtt hús,“ segir Vigfús Blær.
Hann hefur sett á fót söfnun og heimasíðu þar sem hægt er að sjá við hvaða aðstæður börnin búa en fólk getur lagt fram fjárhagsaðstoð með því að leggja inn á banka 322-13-110459 undir kennitölunni 211194-2009.
„Þau vita af söfnuninni ytra, en við megum engan tíma missa,“ segir Vigfús Blær að lokum.