Útsendingar Kanans á tíðninni FM100.5 hófust aftur síðdegis í gær en þær höfðu legið niðri frá því klukkan 14:00 á föstudaginn. Þá höfðu fulltrúar Lýðvarpsins brotið sér leið við erfiðar aðstæður upp á topp Bláfjalla og fjarlægt sendi Kanans úr aðstöðu sem Kaninn leigir af skíðasvæðinu í Bláfjöllum.
„Eftir að við tilkynntum brotið til lögreglu hafði hún samband við fulltrúa Lýðvarpsins sem skilaði búnaðinum strax í kjölfarið. Þannig að á því liggur engin vafi að fulltrúar Lýðvarpsins námu sendi Kanans á brott,“ sagði Einar Bárðarson, útvarpsstjóri, í samtali við sunnlenska.is.
Aftakaveður var á toppi Bláfjalla alla helgina og ótækt að reyna að setja búnaðinn þar upp að nýju fyrr en í gærmorgun þegar veður var töluvert skaplegra á toppnum. „Málið er nú hjá Brynjari Nielsen, lögmanni Kanans. Þessi uppákoma hefur kostað okkur hundruði þúsunda í óþarfa kostnað. Fyrir utan það að vera aðför að viðkvæmum rekstri sem settur er af stað við erfiðar samfélagslegar aðstæður,“ segir Einar.
Einar segir að Póst- og fjarskiptastofnun hafi staðfest í gærmorgun, það sem eigendur Kanans vissu allann tímann, að Kaninn er eina útvarpsstöðin með fullgild leyfi sem hefur þeirra leyfi til útvarpssendinga á Bláfjallasvæðinu og eina stöðin sem hefur tíðnina FM100.5 á suðvestur horni landsins. Að lokum vildi Einar koma á framfæri þökkum til lögreglu, Póst- og fjarskiptastofnunar og starfsmanna Skíðasvæðisins í Bláfjöllum fyrir góða samvinnu í málinu.