Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkti á síðasta fundi sínum tillögu S-listans, sem er í minnihluta, um að könnuð verði þörf á lengdum opnunartíma leikskóla og Skólasels í Hveragerði.
Niðurstöður könnunarinnar verða notaðar til að aðlaga þjónustuna eftir þörfum notenda.
Í greinargerð með tillögu S-listans segir að margir íbúar Hveragerðis þurfi að sækja vinnu og nám út fyrir bæjarfélagið. Vegna þessa bætist við ferðatími sem gerir daginn lengri en ella. Foreldrar ungra barna sem nýta sér þjónustu Hveragerðisbæjar í leikskólum og Skólaseli lenda oftar en ekki í vandræðum þar sem opnunartími leikskóla og Skólasels tekur ekki tillit til þessarar stöðu.
Lagt er til að kannað verði meðal foreldra hvort að þeir myndu nýta sér lengri opnunartíma á leikskólum og í Skólaseli ef slíkt væri í boði. Verði niðurstaðan sú að þörf er á að lengja opnunartíma verði í samráði við leikskólastjóra og umsjónarmann Skólasels unnið að málinu.