Á næstu dögum verður 1.150 manns í Rangárvallasýslu og Mýrdalshreppi sendur spurningalisti í tengslum við rannsókn á áhrifum eldgossins í Eyjafjallajökli fyrir þremur og hálfu ári síðan.
Það er rannsóknarhópur á vegum Háskóla Íslands, Landlæknisembættisins og fleiri sem stendur að könnuninni, en hún er framhald könnunar sem gerð var á sama hópi fyrir þremur árum.
Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri stofnunar Sæmundar fróða er ábyrðarmaður rannsóknarinnar. Hún segir tilganginn vera að átta sig á heilsuáhrifum þess að verða fyrir náttúruhamförum og hvernig bæta megi viðbrögð við þeim.
„Við sendum út bréf og spurningalista til þeirra sem svöruðu okkur síðast en þátttakan síðast var mjög góð,” segir hún. Um er að ræða íbúa, átján ára og eldri, en um 75% allra sem leitað var til síðast, svöruðu spurningunum í könnuninni.
Guðrún segir að ekki sé algengt að hægt sé að gera slíka könnun, þótt eldgos verði víðsvegar um heim. Hér sé hinsvegar bæði auðvelt að ná sambandi við fólk sem og fremur hátt menntunarstig sem leiðir til þess að könnun sem slík sé mjög marktæk.
Spurt um líkamleg og andleg áhrif
Guðrún segir að í könnuninni sé einkanlega spurt um líkamleg einkenni, svo sem hósta, slímuppgang og slíkt, sem og ertingu í augum. Í könnuninni haustið 2010 kom í ljós að fólk á umræddu svæði var þrisvar til sex sinnum líklegra til að hafa slík einkenni. Þá hafi einnig komið fram einkenni um andlega þreytu og að fólki hafi einfaldlega ekki liðið vel sökum óöryggis.
Þá er einnig spurt um álag, svo sem vegna þrifa, viðgerða á vélum og slíku. „Nú verður hinsvegar fróðlegt að sjá hvort fólk sé komið yfir þetta eða hvort framhald sé á,” segir Guðrún.
Niðurstöðurnar verða birtar víða og eru notaðar í tengslum við fræðigreinaskrif og erindi víða um heim.