Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun að kynbundinn launamunur starfsmanna sveitarfélagsins verði kannaður.
Fyrir fundinum lágu tillögur þessa efnis frá Örnu Ír Gunnarsdóttur, S-lista, og Helga S. Haraldssyni, B-lista. Arna Ír óskaði eftir upplýsingum og samanburði á launum karla og kvenna í sambærilegum störfum hjá sveitarfélaginu en Helgi lagði til að framkvæmdastjóra sveitarfélagsins yrði falið að gera athugun á því hvort kynbundinn launamunur sé til staðar hjá starfsfólki þess í sambærilegum störfum.
Í kjölfarið samþykkti bæjarráð að fela Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra, að vinna að undirbúningi könnunar á launamun kynjanna í samræmi við jafnréttisáætlun sveitarfélagins sem samþykkt var í bæjarstjórn þann 20. febrúar síðastliðinn en þar var lagt upp með að könnun sem þessi yrði gerð á næsta ári. Verkefninu verður nú flýtt eins og kostur er.