Kári Kristjánsson á Hæð í Landbroti hlaut í dag Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Verðlaunin eru veitt árlega á Degi íslenskrar náttúru.
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, veitti viðurkenninguna en í umsögn ráðherra segir að Kári, sem stundum hafi verið talað um sem landvörð Íslands, hafi sinnt náttúruvernd af miklum áhuga og eldmóði undanfarna áratugi. Hann hafi verið baráttumaður í stórum náttúruverndarmálum sem smáum og sé laginn við að smita aðra af virðingu fyrir landinu með orðum sínum og gjörðum.
Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni
„Djúpt innsæi og skilningur á náttúrunni, menningu og sögu einkennir Kára í störfum hans og hann er einstökum hæfileikum gæddur til að miðla þekkingu sinni til annarra,“ segir í umsögninni. „Kári hefur þróað aðferð til að flytja til gamburmosaþembur og koma þeim fyrir þar sem álagssár og villustígar hafa myndast og þannig náð að loka ljótum sárum, einkum í kringum Lakagíga, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru. Þá er gestamóttaka sem stunduð er af landvörðum í Lakagígum úthugsað hugarfóstur Kára og aðferðarfræði sem smám saman er að breiðast út um allt land þar sem tekið er á móti hverjum einasta gesti og hann upplýstur um undur svæðisins, umgengnisreglur og verndargildi.“
Kári, sem varð sjötugur fyrr á árinu, er fæddur á Riftúni í Ölfusi. Hann starfaði lengi við námskeiðahald hjá Vinnueftirliti ríkisins yfir vetrartímann en var lausari við á sumrin og gekk því til liðs við Náttúruverndarráð sem landvörður árið 1989. Árið 2000 var hann ráðinn aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Jökulsárgljúfrum en árið 2004, þegar Lakagígar urðu hluti af stækkuðum Skaftafellsþjóðgarði var Kári ráðinn sem sérfræðingur á svæðinu með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri. Hann varð starfsmaður Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hans árið 2008 og hefur starfað þar síðan.