Karlakór Selfoss er 50 ára í dag, en kórinn var stofnaður 2. mars 1965 upp úr sönghóp sem hét „Söngbræður“.
Sá hópur samanstóð að miklu leyti af starfsmönnum Mjólkurbús Flóamanna. Ýmislegt hefur drifið á daga kórsins í gegnum tíðina en kjölfestunni var náð þegar kórinn eignaðist eigið æfingahúsnæði árið 1998.
Síðan hefur húsnæðið verið stækkað og hefur vaxið líkt og fjöldi söngfélaga sem telja nú um 70 söngmenn og hafa þeir aldrei verið jafn margir.
Í tilefni afmælisins gefur kórinn út geisladisk með um þrettán lögum en kórinn var í upptökum í Fella- og Hólakirkju síðastliðinn laugardag.
Á afmælisdaginn ætla kórfélagar að ferðast í rútu um bæinn og syngja á nokkrum vel völdum stöðum. Kórinn mun svo halda upp á afmælið með veglegri afmælishátíð á Hótel Selfossi næstkomandi föstudagskvöld.