Lesendur sunnlenska.is kusu karlalið Selfoss í handbolta Sunnlendinga ársins 2019. Handboltaliðið fékk nokkuð örugga kosningu en þátttakan í atkvæðagreiðslunni var góð að vanda.
Árið 2019 var stórt í íþróttalífinu á Suðurlandi en hæst bar fyrsti Íslandsmeistaratitill Selfoss í boltaíþrótt, þegar Selfyssingar urðu Íslandsmeistarar í handknattleik karla eftir algjörlega magnaðan sigur í fjórða leik einvígisins gegn Haukum þann 22. maí. Fögnuðurinn var gríðarlegur í leikslok og á eftir fylgdi eftirminnileg kvöldstund á Tryggvatorgi þegar liðið kom fagnandi með bikarinn yfir Ölfusárbrú.
„Það voru allir saman í þessu“
„Já, þetta var kvöld sem maður gleymir aldrei. Þetta var frábært afrek og gerði mikið fyrir íþróttalífið á Suðurlandi. Það var mikil jákvæðni í kringum þetta, mikil stemmning og það voru einhvern veginn allir saman í þessu. Allt samfélagið. Þetta gerði líka mikið fyrir ímynd íþróttalífsins á Selfossi og það sprakk svo enn frekar út þegar stelpurnar unnu bikarmeistaratitilinn í fótboltanum síðasta sumar,“ sagði Hergeir Grímsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.
„Við erum bara mjög stoltir og þakklátir fyrir að vera kosnir Sunnlendingar ársins. Árið var frábært hjá okkur og eins og alltaf þá fengum við mjög góðan stuðning af öllu Suðurlandi. Það hefur alltaf verið þannig, í öllum flokkum bæði hjá strákum og stelpum. Það er mikið af iðkendum hjá okkur úr sveitunum og bæjunum í kring þannig að við höfum alltaf fengið góðan stuðning af öllu Suðurlandi,“ bætti Hergeir við.
Hergeir tók við viðurkenningunni úr hendi Guðmundar Karls Sigurdórssonar, ritstjóra, fyrir leik liðsins gegn Aftureldingu í Olísdeildinni í Iðu í kvöld.
Aldrei fleiri tilnefndir
Þetta er tíunda árið í röð sem lesendur sunnlenska.is kjósa Sunnlending ársins. Alls fengu 23 Sunnlendingar atkvæði í kjörinu að þessu sinni og hafa sjaldan verið fleiri.
Í öðru sæti í kosningunni urðu viðbragðsaðilar á Suðurlandi sem áttu annasamt ár og í þriðja sæti í kosningunni varð svo Else Nielsen, sem hefur unnið frábært starf með fötluðu fólki í VISS, vinnu- og hæfingarstöð á Flúðum.