Karlmaður brenndist í gassprengingu

Karlmaður brenndist þegar eldur kom upp í litlu svefnhúsi á sumarbústaðalóð í landi Svínhaga á Rangárvöllum snemma í morgun.

Allt lítur út fyrir að um gassprengingu hafa verið að ræða en talið er að eldurinn hafi kviknað þegar maðurinn ætlaði að hita sér kaffi með gashitara. Maðurinn náði sjálfur að láta vita af sér en hann hlaut talsverð brunasár. Hann var fluttur á sjúkrahús en ekki fengust upplýsingar um líðan hans.

Húsið brann til grunna og komst eldurinn einnig í bifreið og kerru sem stóðu við hlið hússins. Bifreiðin brann líkt og húsið til kaldra kola, samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Brunavörnum Rangárvallasýslu.

Útkallið barst um klukkan sjö í morgun og fóru fimm bílar frá Brunavörnum Rangárvallasýslu á vettvang. Ríflega 50 sumarbústaðir eru á svæðinu þar sem eldurinn kom upp.

Vísir greindi frá þessu.

Fyrri greinÖlvaður á Biskupstungnabraut
Næsta greinAlvarlegt slys í Sundhöll Selfoss