„Ég ætla að kenna fólki að fá smá frelsi frá sjálfum sér,“ segir Selfyssingurinn Sigríður Karlsdóttir sem mun halda fyrirlestur á Hótel Selfossi á morgun, fimmtudag.
Fyrirlesturinn ber heitið „Því hún er alltof feit, sagði hún um sjálfan sig.“
Aðspurð segir Sigríður að þetta sé fyrirlestur um ótal margt. „Ætli þetta sé ekki sjálfshjálpar fyrirlestur? Tilraun mín til að veita öðrum innblástur og von í þeirra baráttu við sjálfan sig,“ segir Sigríður sem er menntaður ÍAK þjálfari frá Keili og lífsleiknikennari frá Háskóla Íslands.
Hugurinn þarf að fylgja
„Ég sé alltaf með hverjum deginum aukna þörf á að ræða um sjálfsvirðinguna og að kenna fólki að það þarf svo miklu meira en bara að breyta matarræðinu til að líða vel í eigin skinni. Hugurinn þarf að fylgja og það þarf sko dass af þolinmæði með. Við erum svo gjörn á að vilja alltaf fá „short cut-ið“ ef ég má segja sem svo,“ segir Sigríður en hún hefur starfað sem heilsuráðgjafi í um sex ár.
Höfum misst hæfileikann til að bíða
Sigríður segist skilja þessa óþolinmæði vel. „Við þurfum ekki að bíða eftir neinu í dag. Við pöntum það á netinu og það er komið. Við höfum misst hæfileikann til að bíða og leyfa náttúrulögmálinu að vinna sína vinnu.“
„Eftir ítrekaðar tilraunir til að ná árangri með allskyns aðferðum sem eiga að virka vel og á stuttum tíma, en virka ekki, þá missum við von og upplifum okkur svolítið sem misheppnuð. Mig langar til að miðla því sem ég hef fengið í reynslubankann minn. Opna hurðir fyrir fólk,“ segir Sigríður.
Á heimavelli
Sigríður er nýflutt aftur á Selfoss eftir að hafa búið í höfuðborginni í átta ár. „Ég er í fæðingarorlofi og barnið mitt sefur bara allan daginn svo ég hafði ekkert annað betra að gera en að halda fyrirlestur,“ útskýrir Sigríður þegar blaðamaður spyr hana hvernig það hafi komið til að hún ákvað að halda fyrirlestur á Hótel Selfossi en ekki til dæmis í Reykjavík.
„Ég var búin að þvo þvottinn og horfa á Nágranna, svo ég ákvað að halda áfram að vinna í Heilbrigð heilsuráðgjöf. Svo vatt þetta bara upp á sig. Um leið og ég opnaði á þetta aftur eftir nokkurra mánaða frí þá bara fuku inn verkefnin. Ég hef ekki undan og ég tel það vera af því að ég er komin á Selfoss og fólk þekkir mig hér og tekur svo hrikalega vel í hlutina,“ segir Sigríður.
„Ég hef líka starfað á Hótel Selfossi í aukavinnu í ellefu ár núna og það er mitt annað heimili. Mér finnst ég vera á heimavelli þegar ég er þarna með fyrirlestra en ég hef áður haldið fyrirlestur þarna. Ætli það hafi ekki verið það sem dreif mig í að vera með fyrirlestur á Selfossi. Öryggið og heimahagarnir.“
Ekki bara fyrir konurnar
„Ég veit fullvel að þessi fyrirlestur höfðar miklu frekar til kvenna en karla. Ég starfa einungis með konum í heilsuráðgjöfinni, einfaldlega af því ég er kona. Ég tengi betur við þær og get sett mig auðveldlega í þeirra spor,“ svarar Sigríður aðspurð um fyrir hverja fyrirlesturinn er.
„Ég hugsaði á tímapunkti þegar ég var sem mest í ráðgjöfinni hvort ég væri að mismuna kynjunum, en ég á vin úr náminu sem þjálfar bara karlmenn, svo ég hugsaði með mér að þarna jafnaðist þetta út. Það hafa allir gott að því að koma á fyrirlesturinn minn og ég veit að karlmenn þurfa líka að heyra þessi skilaboð. Svo ég myndi segja að fyrirlesturinn væri fyrir alla, konur og kalla, helst með bumbu og skalla,“ segir Sigríður brosandi.
Var sjálf of þung
Heilsuáhugi Sigríðar kviknaði þegar hún var mjög ung. „Ég var sjálf of þung fyrir 11 árum síðan og hef mikla reynslu af því að berjast við fitupúkann. Eftir að ég náði tökum á því þá hefur þetta verið mér hugleikið.“
„Svo er það þetta með líkamann. Meðan aðrir lesa DV á netinu er ég að lesa um sjúkdóma og allt sem við kemur líkamanum. Ég veit ekki hvort ég eigi að viðurkenna það en ég ligg yfir glærum frá kennurum upp í háskóla sem fjalla um lífeðlisfræði og líffærafræði,“ segir Sigríður.
„Ef ég væri 10 árum yngri og ætti fullt af peningum, þá færi ég í lækninn. Líkaminn í sjálfu sér finnst mér svo heillandi og sjarmerandi fyrirbæri að ég nýti minn frítíma í að rannsaka hann betur.“
Sigríður hefur ekki bara áhuga á líkamanum heldur einnig andlegri líðan, enda hugur og líkami nátengd. „Ég fékk brennandi áhuga á andlegri líðan og andlegum málefnum fyrir átta árum síðan og hef verið að grúska og kukla síðan. Ég upplifði sjálf andlega vakningu fyrir nokkrum árum og sá hversu mikilvægt að líkami og sál haldist að.“
Vill hjálpa öðrum
Sigríður er fljót til svars þegar hún er spurð að því hvað það er sem veitir henni innblástur og hvetur hana áfram í sínu starfi. „Veistu, ég er knúin svo sterku afli að hjálpa öðrum. Ég fékk það í vöggugjöf og ég er afar þakklát fyrir þá gjöf. Ef ég sé að það er eitthvað þarna úti sem hefur góð áhrif á fólk, þá langar mig að kynna það fyrir alheiminum.“
„Þegar ég var sex ára sagðist ég ætla búa upp í sveit og taka öll munaðarlaus dýr að mér. Ég verð þó að gæta mín á að sleppa takinu af fólki í kringum mig og hef lært að það er bara takmarkað sem ég get gert. Ég get haldið fyrirlestra og sýnt náungakærleik, unnið við að hjálpa öðum, en ég verð að sleppa takinu af fátæku börnunum í Afríku og heilbrigðiskerfinu á Íslandi. En ég get hugsað vel um þá sem eru í kringum mig og þá sem leita til mín.“
„Innblásturinn kemur líka frá brengluðu samfélagi. Þörfin er áþreifanleg. Börnin okkar hafa mjög beyglaða sýn á heiminn og finnst mér það vera í okkar verkahring að reyna afrugla það sem orðið ruglað er,“ segir Sigríður.
„Bráðum verða ekki til ömmur og afar til að hægja á okkur og minna okkur á fallegu gildin. Ég fæ ekki nóg af því að minna á þolinmæðina og kærleikann sem eru ein sterkustu vopn í lífsins baráttu,“ segir Sigríður að lokum.
Nánari upplýsingar um fyrirlesturinn má finna hér.