Karpað um lóðafrágang og innréttingar á bæjarstjórnarfundi

Hveragerði. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Aðeins eitt tilboð barst í lóðafrágang við viðbyggingu leikskólans Óskalands í Hveragerði eftir verðkönnun bæjarins en tilboð voru opnuð í síðustu viku.

Garðþjónustan ehf bauð rúmlega 70,5 milljónir króna en kostnaðaráætlun Hveragerðisbæjar hljóðar upp á 51,7 milljónir króna. Meirihluti bæjarstjórnar samþykkti á fundi sínum í vikunni að taka tilboði Garðþjónustunnar en verkinu á að vera lokið þann 15. desember næstkomandi.

Minnihlutinn furðu lostinn
Bæjarfulltrúar D-listans sátu hjá og ítrekuðu í bókun sinni að þeir hafi frá upphafi verið ósammála þeirri leið sem meirihlutinn valdi við uppbyggingu leikskólans.

„Það vekur furðu að ekki hafi verið samið í upphafi verksins um lóðafrágang og innanhús innréttingar og nú bætist við tugmilljóna króna aukakostnaður við þessa viðbyggingu sem lendir á sveitarfélaginu, við viðbyggingu sem meirihlutinn hefur skuldbundið sveitarfélagið að leigja, til áratuga,“ segir í bókun minnihlutans.

Stígandi bauð lægst í innréttingar
Á sama fundi var samþykkt tilboð Trésmiðjunnar Stíganda í innréttingar í viðbygginguna. Tilboð Stíganda hljóðaði upp á 40,8 milljónir króna en Ágúst Guðmundsson ehf bauð 51,2 milljónir og GKS ehf 71,1 milljón króna.

„Tilboðin […] eru í verk sem þurfa að klárast, lóðfrágang og innréttingar, og gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun, til að náist að opna nýja viðbyggingu leikskólans Óskalands. Þessi áfangi er gleðiefni í þeirri vegferð að auka við leikskólapláss í Hveragerði. Nú er brýnt að tryggja að aðgengi (bílastæði) foreldra að leikskólanum sé gott, sérstaklega í ljósi þessi að börnum muni gleðilega fjölga við Óskaland þegar ný viðbygging er komin í gagnið,“ segir í bókun sem fulltrúar meirihlutans lögðu fram í lok fundar.

Fyrri grein„Undirliggjandi minni“ í Félagslundi
Næsta greinBetra umferðarflæði er öryggismál fyrir alla íbúa Árnessýslu