Karpov vitjaði grafar Fischer

Rússneski skákmaðurinn Anatoly Karpov vitjaði í morgun grafar Bobbys Fischers, sem er jarðaður í kirkjugarðinum við Laugardælakirkju.

Í kirkjunni fór fram stutt minningarathöfn undir stjórn Einars S. Einarssonar og skrifaði Karpov meðal annars nafn sitt í minningarbók um Fischer.

Karpov varð heimsmeistrari í skák árið 1975 þegar Fischer neitaði að mæta honum í einvígi. Í viðtali við Sunnudagsmoggann í dag segir Karpov, að hann hafi hitt Fischer fjórum sinnum. Í fyrsta skipti þegar hann var boðinn til Sovétríkjanna sem nýkrýndur heimsmeistari og leit við á skákmóti sem Karpov tók þátt í. Síðan hittust þeir í Japan árið 1976, mánuði síðar á Spáni og loks í Washington árið 1977.

„En við ræddum möguleika á að tefla einvígi á síðustu árum þegar hann var fluttur til Íslands. Ég bauð honum að tefla, en hann vildi alltaf vera að breyta skákinni. Þegar ég samþykkti að tefla Fischer random chess, þá neitaði hann því og vildi útfæra nýja hugmynd um að hvítur hæfi leikinn án eins peðs. En mér líkaði það ekki,“ segir Karpov í Sunnudagsmogganum.

Fyrri greinÞrjú hringtorg á Biskupstungnabraut
Næsta greinSýningarstjóraspjall í Listasafninu